
Tuesday, November 15, 2011
Af Sunnubóli og Ufsa
Wednesday, November 9, 2011
Gúddí fílingur í eyjum
Monday, November 7, 2011
Okkar fyrstu dagar sem vestmannaeyjingar
Við komum til Eyja í gær í glampandi sól og góðu veðri eftir ansi vaggandi ferð í Herjólfi. Við fundum litla sæta húsið okkar mjög fljótt og rákum þá upp tilheyrandi gleðiöskur og skræki. Við notuðum svo daginn í að breyta aðeins til í kringum okkur, mestu breytingarnar urðu á veggjunum, þar sem við tókum niður nokkur tonn af krönsum og útsaumuðum listaverkum sem eru nauðsynleg í öllum sumarbústöðum, en þar sem þessi sumarbústaður er að verða að alvöru heimili, þá passaði þetta ekki alveg inn. Við erum saman í hjónaherberginu sem er niðri ásamt stofu, eldhúsi og klósetti. Uppi erum við með tvö herbergi með sitthvorum tveimur rúmunum í, en við ætlum að nota herbergin sem hinsvegar walk-in closet og í hinu verðum við með trönur, gítar o.s.frv. Eins og þið heyrið er nóg af plássi fyrir gesti, og okkur langar endilega í þannig.
Útsýnið hérna er magnað. Það er svo hrátt en samt fallegt landslag hérna og veðrið og birtan í kringum klettana, sem við sjáum út um gluggana okkar, breytist á nokkra mínútna fresti. Það er yndislega ferskt loft hérna - stundum eiginlega of ferskt, það blæs eins og ég veit ekki hvað – en það er bara frábært.
Þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir í húsinu okkar, þá fórum við og versluðum í matinn og ég gerði allt tilbúið í dýrindis mangó-chutney kjúkling, meðan Sunna S ryksugaði og gerði fínt í kringum okkur. Síðan fórum við út að skokka smá spöl, en við höfum á tilfinningunni að hér sé alltaf rokrassgat, allavega hérna þar sem við erum, þannig að við náðum varla andanum og snerum fljótt við og fórum heim. Þar fórum við báðar í mjög snögga sturtu, eftir aðvörun frá nágranna okkur honum Einari um að vatnið í hitakútnum okkar kláraðist mjög fljótt, og hér þýddi ekkert að fara í “lúxus-Reykjavíkur-sturtur”.
Eftir það borðuðum góðan mat, tókum sængurnar okkar og komum okkur fyrir í svefnsófanum okkar inni í stofu, settum mynd í tækið og kúrðum svo í torfkofanum meðan rigningin barði gluggana. Ótrúlega kósý hjá okkas. Við sofnuðum snemma til að vera hressar daginn eftir, þar sem okkar vonandi stórslegni ferill sem fiskvinnslukonur byrjaði.
Í morgun fórum við á fætur góðum tíma áður en við áttum að mæta sem var kl 8, og við ákváðum nú að skella smá málningu í andlitið á okkar þar sem þetta var fyrsti dagurinn. Við borðuðum morgunmat og fórum í þau föt sem við héldum að væru góð í frystihúsinu, en höfðum í rauninni ekki hugmynd um í hverju við ættum að vera. Við smurðum okkur smá nesti, þar sem það er ekki mötuneyti í frystihúsinu, okkur til mikilla vonbrigða.
Við mættum í frystihúsið og verkstjórinn tók á móti okkur. Mjög indæl en ákveðin kona. Við fengum bláa sloppa, blá hárnet, bláa hanska sem eru dregnir af laununum okkar, bláar svuntur, bláar ermahlífar, en við þurftum að fá lánuð hvít stígvél, þar sem að við vissum ekki að við þyrftum að taka þau með sjálfar. Ein konan fussaði þvílíkt yfir okkur: “Hvað heldur fólk eiginlega að það sé að fara í þegar það kemur frá Reykjavík? Kemur ekki einu sinni með stígvél!” Við vorum eins og kúkar, en við höfðum skilið það þannig að við fengjum allt í frystihúsinu. Þannig að við létum panta stígvél í gegnum frystihúsið. Þar fóru 13.000 kr sem okkur langaði ótrúlega að nota í gúmmístígvél, þannig að við vorum bara ánægðar.
Við vorum settar í pakkningu af ufsa, eða pollock eins og hann heitir á ensku, börnin góð. Vinnan snýst semsagt um það að við fáum bakka með fiski, við þurfum að skipta honum í 6 litla flakapoka, þannig að það sé nokkurnveginn jafnt í öllum pokum, setja hann í öskju og endurtaka svo. Þetta er ekki leiðinleg vinna, það kom mér pínu á óvart. En þetta er mjög vel skipulagt, þannig að maður vinnur rosalega hratt (við reynum) til þess að manneskjan við hliðina á manni þurfi ekki að bíða með að gera sína vinnu, t.d. að vikta fiskinn í bakkana. Við vorum reyndar fjórar nýjar stelpur í pakkningu í dag, þannig að afkastabónusinn hefur örugglega ekki verið neitt hrikalegur, sem maður fann skiljanlega smá á þeim sem eru vanar. Já, vanar -það eru eingöngu kvenmenn í pakkningu, flökun og snyrtingu.
Þegar við vorum búnar að vinna í ca. Klst, þá hringir bjalla í öllu frystihúsinu, allir leggja allt frá sér og fara upp í pásu. Við eltum bara alla hina og fórum upp í kaffistofu. Við vorum náttúrlega í mikið lengri tíma en allir aðrir að klæða okkur úr múnderingunni, en gátum loks sest niður við borð. Við tókum þar fram brauðsneiðar og opnuðum kókómjólk. Síðan þegar við erum liggur við að taka fyrsta bitann, þá hringir helvítis bjallan aftur og pásan búin. Við flýttum okkur aftur í múnderinguna, náðum okkur í nýja hanska og héldum vinnunni áfram. Maður vinnur reyndar mun hraðar þegar það eru svona oft pásur, því maður tekur svona vinnu-törn. Bjallan hringdi á klukkutíma fresti og við fórum í 5 mínútna “pásu” (=í og úr fötin), nema það að allt í einu var búið að stela nestinu okkar, sem var alls ekki spennandi. Það var reyndar tóbakspakki í, og hann hefur kannski freistað einhvers. Okkur var boðinn matur frá öllum hinum og allir voru rosalega almennilegir. Pokinn kemur vonandi til skila á morgun.
Í einni pásunni segir ein konan við ykkur: “Stelpur, eruð þið nokkuð að setja á ykkur nýja hanska eftir hverja pásu? Ætlið þið bara að vinna fyrir hönskum? Við notum sömu hanskana allan daginn”. Við fengum okkur ekki fleiri nýja hanska. Síðan eftir að hafa farið í og úr fötunum ca. 19 sinnum, þá var vinnudagurinn að enda kominn. Við fórum í búð, og svo heim og beint upp í svefnsófa og lögðum okkur í smástund. Við finnum vel fyrir vinnunni í öxlunum og bakinu, en vonandi venst þetta.
Á morgun bíður okkar nýr og spennandi dagur og við hlökkum til að sjá í hvernig vinnu við verðum á morgun.
Nýjustu fréttir eru að Sunna S er byrjuð að borða papriku og braut könnu. Ég drekk bara Senseo kaffi í fínu kaffivélinni okkar og við horfum á táknmálsfréttir á hverju kvöldi. Vonandi hafið þið það gott á Íslandi.
Kv. Sunna G
Saturday, November 5, 2011
Á morgun

Thursday, November 3, 2011
The beginning...
Jæja, þá er búið að panta í Herjólf. Við förum á sunnudaginn kl 10:00. Okkar dvöl í Reykjavík verður slúttað almennilega með skemmtilegu djammi og svo tekur alvaran við. Við erum komnar með ótrúlega sæta íbúð í Eyjum - hálfgerður sumarbústaður með torfþaki, ótrúlega sætt og kósý. Endilega googlið “Höfðaból gestahús” og þá sjáið þið okkar nýja heimili, sem héðan í frá verður kallað Sunnuból. Við fórum í gær á starfsmannaútsölu 66°norður og keyptum okkur fullt af hlýjum fötum til að vera í innanundir sjógallanum og gúmmístígvélunum. Við erum ógeðslega spenntar og erum svo ákveðnar í að gera þetta virkilega skemmtilega vinnutörn, og þegar henni lýkur eigum við skítnóg af peningum og getum ferðast um Asíu eins og planið er.
Nú bíðum við bara spenntar þangað til sunnudagurinn rennur upp og við flytjum, en aðal spenningurinn er samt að mæta á mánudaginn og“stimpilklukkan býður góðan daginn”..
Þetta verður æsispennandi..
- Sunna G
(ps. við erum búnar að google-a muninn á þorski og ýsu, við erum í góðum málum)